Presthvammur er austurbakki efsta hluta urriðasvæðanna neðan virkjunnar í Laxá í Aðaldal. Mjög skemmtilegt fjölskyldusvæði með mikilli náttúrufegurð og hreint frábært þurrflugusvæði þegar veður leyfir.
Iceland Fishing Guide er leigutaki Presthvamms. Fyrir frekari upplýsingar hafið samband í síma 779.2220 eða á netfangið info@icelandfishingguide.com
1 – 2. Ferjubreiða neðri og efri: Stór og mikil breiða þar sem urriði getur legið um allt. Litlar silungaflugur, þurrflugur og óþyngdar púpur er mjög gott að nota á þessu svæði. Hægt er að vaða út á breiðuna frá bakkanum við efri part hennar og fara niður hana en í henni eru álar sem að ber að varast. Neðst á svæðinu geta álarnir verið djúpir og sandbotn erfiður yfirferðar. Hafa ber í huga að botninn getur breyst mikið á milli ára. Þá getur líka verið ákjósanlegt er að byrja að veiða frá bakka neðst, kasta púpu eða þurrflugu upp fyrir sig og færa sig ofar. Vænn urriði getur legið nálægt bakkanum. Hægt er að róa á bát út á breiðuna efst og veiða svo niður hana, þá er þurrflugan skemmtilegur kostur.
3. Kollurinn: Hólmi neðan við veiðihúsið. Hann er í vík neðan við flúðirnar þar sem að áin fer að breiða úr sér eftir að hún kemur úr gilinu. Hægt er að vaða út í hólmann og kasta út í strenginn vestur af honum. Oft hefur veiðst Bleikja á sandbotninum í kringum Kollinn. Bátur er í víkinni inn af hólmanum. Sumir kjósa að róa út og upp fyrir hólmann, kasta ankeri í lygnu milli tveggja stórra steina sem að brýtur á neðan við flúðirnar og veiða úr bátnum. Þó ber að hafa í huga að þarna er straumurinn orðinn meiri og báturinn þungur og getur verið erfiður að ráða við. Því ber að gæta fyllstu varúðar þagar báturinn er notaður.
4. Stekkjavík: Stekkjavik er næsta vík ofan við Kollinn. Lítil vík undir lágum klettum. Þarna eru þyngdar púpur mest notaðar og fiskurinn getur verið um allt, í lygnum og straumskilum og við stóra steina sem eru áberandi í flúðunum. Hægt er að vaða út á flúðirnar ofan við víkina og kasta þar en best að fara varlega yfir, þarna er straumurinn orðinn meiri, steinarnir eru hálir og djúpir pollar út frá víkinni.
5. Klettavík: Þarna er veitt frá bakka. Þetta er neðsti hlutinn af gilinu og straumurinn orðinn nokkuð mikill. Á þessu svæði eru nokkrar flúðir og liggur urriðinn gjarnan ofan við þær. Einnig eru margar smávíkur og steinar upp við bakkann upp eftir gilinu og miklar líkur á að þar liggi fiskur. Þetta svæði er ásamt efsta veiðisvæðinu best til þess fallið að nota vel þyngdar púpur.
6. Rörið: Þetta er efsti veiðistaðurinn og hér endar veiðisvæðið. Hér veiða menn frá bakka. Straumurinn er orðinn mikill og hér eru menn að nota vel þyngdar púpur í straumskilunum og nálægt bakkanum.
20. maí – 20. september.
Seldar eru 2 stangir, hálfan dag í senn.
7-13 og 16-22 en eftir 15. ágúst 7-13 og 15-21.
Fluga eingöngu
Sleppa þarf öllum laxi en 2 fiska kvóti er á urriða á stöng á hálfum degi
Gisting í kofa með rennandi vatni og salerni er innifalin. Í kofanum eru áhöld þess að hita og neyta matar. Þar eru tvö rúm og hægt er að tjalda eða setja upp tjaldvagn innan girðingar við veiðikofann. Veiðimönnum er bent á gistingu í nærliggjandi gistihúsum, Þinghúsinu, sími 464 3695, Gistihúsinu Brekku, sími 899 4218 ef menn vilja hafa meiri þægindi.
Rafræn veiðibók áVeiðitorg.isog einnig er veiðibók á staðnum.
Eftirlit með veiðum hefur Kristján V Kristjánsson S: 8576677 Bátur er á svæðinu og skal það ítrekað að öll notkun hans er á ábyrgð veiðimanna sjálfra og eru menn beðnir um að fara gætilega við notkun hans. Þá skal það tekið fram að oft getur verið talsvert slýrek í ánni, sérstaklega síðsumars og þá verða steinar hálir og skyggni í vatninu slakt. Ástæða er til þess að biðja veiðimenn að fara varlega við slíkar aðstæður.
Veiðileyfi fást ekki endurgreidd. Kaupandi skuldbindur sig til að skrá alla veiði samviskusamlega í þar til gerða veiðibók.